Golfmót í Grundarfirði

Á haustdögum hélt Ístak, í samstarfi við heimamenn, golfmót á Bárarvelli í Grundarfirði. Fyrirkomulagið var svokallað Texas Scramble og spilaðar 18 holur. Mótið tókst vel og var hið skemmtilegasta.
Skemmst er frá því að segja að heimamenn tóku Ístaksfólk í bakaríið og hirtu öll verðlaun sem í boði voru. Allir skemmtu sér þó vel og aðkomumenn áttu góðan dag í hinum fallega firði.
Í Grundarfirði vinnur Ístak nú að því að byggja nýtt og fullkomið fiskvinnsluhús fyrir G. Run og gengur verkið vel. Stefnt er að því að taka húsið í notkun í byrjun nýs árs.
Nýr hafnargarður við gömlu höfnina í Reykjavík

Vinna við 2. áfanga Norðurgarðs við gömlu höfnina í Reykjavík er nú lokið. Verkið var unnið fyrir Faxaflóahafnir og HB-Granda og fólst í því að byggja nýjan hafnarbakka fyrir framan frystihús HB-Granda.

Lengd nýja hafnarbakkans er 120 metrar. Verkefni Ístaks voru að rífa gamla trébryggju sem var fyrir, reka niður stálþil fyrir nýjan hafnarbakka, steypa kant á stálþilið ásamt frágangi á pollum, kantré og stigum. Í verkinu fólst einnig vinna við að steypa þekju með snjóbræðslukerfi á milli frystihúss og hafnarbakka. Framkvæmdir hófust í júní 2017 og lauk í september 2018.

Við stálþilsreksturinn var Ístak í samstarfi við móðurfélag sitt Per Aarsleff í Danmörku sem lagði til menn og búnað, en sá hópur hafði nýlokið niðurrekstri á stálþili í verkefni Ístaks á Kleppsbakka þar sem verkkaupi er einnig Faxaflóahafnir. Niðurreksturinn gekk mjög vel og hafði eftirlitsmaður Faxaflóahafna orð á því að hann hafi aldrei séð jafn flott og beint niðurrekið stálþil.

Svona leit hafnarbakkinn út áður en framkvæmdir hófust.

Að loknum framkvæmdum.

Niðurrekstur á stálþilinu gekk vel með aðstoð hóps og búnaði frá Per Aarsleff.
Brunavarnir Suðurnesja og ÍSTAK undirrita samning um nýja slökkvistöð

Þann 17. október sl. var undirritaður samningur á milli Ístaks og Brunavarna Suðurnesja um byggingu nýrrar slökkvistöðvar í Reykjanesbæ. Áætlað er að stöðin verði tekin í notkun í lok nóvember á næsta ári.
Stöðin verður á tveimur hæðum, um 2250 m2 að gólffleti og auk slökkviðstöðvar verður aðgerðarstjórnstöð fyrir almannavarnir í húsinu. Staðsetning stöðvarinnar er við Flugvelli, ofan Iðuvalla og er því miðsvæðis þegar horft er til þjónustusvæðis Brunavarna Suðurnesja sem nær frá Reykjanesbæ, í Sandgerði, Garð og Voga. Eins er stutt í flugstöðina, en mikil aukning hefur orðið á sjúkraflutningum í tengslum við aukinn ferðamannastraum til landsins.
Núverandi húsnæði er orðið 50 ára gamalt og uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til slíkra bygginga í dag og því mun öll aðstaða gjörbreytast með nýju stöðinni.

Við undirritun samningsins, (frá vinstri) Friðjón Einarsson, stjórnarformaður Brunavarna Suðurnesja, Brynjar Brjánsson og Karl Andreassen frá Ístaki, Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóri og Sigurður Skarphéðinsson aðstoðarslökkviliðsstjóri.
Vel gengur að reisa nýtt og fullkomið fiskvinnsluhús G. Run í Grundarfirði.

Fyrr á árinu hóf Ístak vinnu við nýtt og fullkomið fiskvinnsluhús G. Run í Grundarfirði. Framkvæmdir hafa gengið vel og stefnt er að því að vinnsla hefjist þar strax í byrjun nýs árs. Vinnsluhúsið verður búið fullkomnum tækjabúnaði til bolfiskvinnslu og eftir stækkunina verður hægt að vinna 75-80% meira magn en í núverandi húsnæði, en með svipuðum fjölda starfsfólks. Ístak hefur séð alfarið um framkvæmdirnar með aðstoð ýmissa undirverktaka og hefur verkið gengið hratt og vel fyrir sig. Eins og áður sagði er stefnt að því að hefja vinnslu í nýja húsinu strax í byrjun næsta árs og er allt útlit fyrir að það gangi eftir.
Heldri Ístaksmenn hittast í hádegismat

Fyrsti föstudagur í hverjum mánuði er sannkallaður hátíðisdagur fyrir marga hér í höfuðstöðvum Ístaks, en þá er alla jafna kótilettudagur í mötuneytinu hjá Rósu. Sú skemmtilega hefð hefur skapast í fyrirtækinu að á þessum dögum mætir hópur heldri manna í hádegismat og borðar saman hjá okkur. Um er að ræða fyrrverandi starfsmenn sem gengt hafa lykilstöðum í fyrirtækinu í áranna rás en eru nú farnir að taka lífinu með meiri ró. Þegar við smelltum af mynd voru þeir félagar Hörður, Gunni, Sævar, Steini, Nenni, Hannes og Allan mættir í mat og átti þá eftir að bætast í hópinn. Það er því góður hópur gamalla félaga á ferli í mötuneytinu þegar kótilettur og tilbehør eru á boðstólum hér í Bugðufljóti.

Heldri Ístaksmenn mættir í kótiletturnar, frá vinstri: Hörður Sigmundsson, Gunnar Sigurbjörnsson, Sævar Kristbjörnsson, Þorsteinn Árnason, Steinar Kristbjörnsson, Hannes Benediktsson og Allan Sveinbjörnsson.
Anna Jóna Kjartansdóttir nýr gæða- og öryggisstjóri

Anna Jóna Kjartansdóttir hefur tekið við starfi gæða- og öryggisstjóra hjá Ístaki. Anna Jóna kemur úr samskonar starfi hjá Jarðborunum og hefur unnið í gæða og öryggismálum síðan 2011. Hún er byggingaverkfræðingur að mennt og útskrifaðist frá Háskóla Íslands & DTU í Danmörku. Fyrir utan að hafa starfað hjá Jarðborunum hefur Anna Jóna unnið hjá Mannviti sem verkefnastjóri og umsjónarmaður með umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi Mannvits. Við bjóðum Önnu Jónu hjartanlega velkomna til starfa hjá fyrirtækinu.

Anna Jóna Kjartansdóttir gæða- og öryggisstjóri Ístaks
Ístak byggir upp 2. áfanga Matorku

Á vormánuðum hóf Ístak jarðvinnu við 2. áfanga Matorku rétt vestan við Grindavík. Á árunum 2016-2017 sá Ístak um að byggja upp 1. áfanga í þessu verkefni sem var um 1.500 tonn, sama stærð og sá áfangi sem unnið er að núna. Matorka einbeitir sér að eldi á bleikju í landkvíum og notast er við affallsvarma sem gerir eldisstöðina í raun einstaka á heimsvísu .

Framkvæmdatími þessa 2. áfanga er frá apríl 2018 og til loka mars 2019 og felur í sér að reisa sex 1.600 m3 ker, tvö 450 m3 ker og tvö 35 m löng sveltiker. Þá er talsvert stór hluti framkvæmdarinnar fólginn í lagna- og rafmagnsvinnu. Einnig er uppsetning á mismunandi sérhæfðum búnaði sem kemur allur erlendis frá.
Nú hefur Ístak reist öll kerin og vinna við að fylla upp í kringum þau stendur sem hæst.

Þá er lagnavinna og rafmagnsvinna einnig hafin ásamt frágangi á borholum. Mikil vinna fer einnig í frágang á innri veggjum kerjanna en miklar kröfur eru gerðar til þess að yfirborðið sé slétt og fínt.
Veggir hringkerjanna voru forsteyptir sem einingar í steypuskála Ístaks og fluttir á verkstað af véladeild fyrirtækisins. Einnig eru ýmsir smátankar forsteypir í steypuskálanum og fluttir á staðinn. Þá hefur stálsmiðja Ístaks tekið að sér verkefni eins og smíði á botnristum, vinklum og ryðfríum lögnum.
Staurar mynda undirstöður fyrir sökkla

Í mars á þessu ári sá Ístak um að reka niður í jörðina 265 stk. af staurum, sem þjóna því hlutverki að mynda undirstöður fyrir sökkla íbúðarblokka er nú rísa við Keilugranda 1-11 í Reykjavík. Staurarnir voru 9-12 metra langir og því hafa samanlagt verið reknir niður u.þ.b. 2.5 km af staurum. Á svæðinu verða 78 íbúðir og er það Búseti sem stendur að framkvæmdum.

Þessi aðferð er ekki algeng hér á landi því yfirleitt er valin sú leið að efnisskipta. Í þessu tilfelli er svæðið þekkt fyrir sig á blokkum og götum og djúpt er niður á fast. Undir byggingasvæðinu eru gamlir ruslahaugar og því erfitt og kostnaðarsamt að efnisskipta. Ístak vann verkið í samstarfi við systurfyrirtæki sín sem eru í eigu Aarsleff samstæðunnar. Centrum Påle AB í Svíþjóð sá um að framleiða staurana og Aarsleff Ground Engineering Ltd. í Bretlandi sá um tækjabúnaðinn og niðurreksturinn.
Notaður var fullkominn búnaður frá Aarsleff við verkið og gekk það mun betur en menn höfðu gert ráð fyrir.
Þessa aðferð væri hægt að nota víðar þar sem erfitt er að efnisskipta, t.d. við strandlengju þar sem sjávarfalla gætir eða á svæðum þar sem mikil umferð er fyrir á stofnæðum.
Framkvæmdir við Brúarvirkjun ganga vel

Nú eru framkvæmdir við Brúarvirkjun komnar á fullt skrið. Skrifað var undir samning við HS Orku þann 21. júní sl. og hóf Ístak strax vinnu við að hreinsa gróðurlög og greftrun á lausum jarðlögum þar sem rísa mun stöðvarhús.
Ístak sér um gerð allra stífla, skurða og landmótun vegna virkjunarinnar ásamt uppsteypu inntaks, botnrásar, yfirfalls og stöðvarhúss. Fullnaðarfrágangur þessara mannvirkja með tilheyrandi yfirborðsfrágangi flata, lögnum, loftræsingu og hefðbundnum föstum búnaði, vélbúnaði, og glertrefjahluta þrýstipípu virkjunar er einnig í okkar höndum.
Í raun má segja að Ístak sjái um að fullgera virkjunina að frátöldu því að útvega vél- og lokubúnað, stöðvarspenna og þrýstipípu ásamt uppsetningu á stálhluta þrýstipípunnar og lokubúnaði. Áætluð verklok eru í mars 2020.
Endurbætur Landeyjahafnar

Síðastliðin föstudag skrifuðu þau Karl Andreassen  framkvæmdastjóri Ístaks og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar undir verksamning vegna vinnu við endurbætur Landeyjahafnar. Ístak mun sjá um að byggja tunnur á enda brimvarnargarða, grjótvörn á garðsendum, byggingu vegar út vesturgarð og stækkun innri hafnarinnar.
Grjótgarðinn gegnt bryggjunni á að færa til austurs og snúningsvæðið verður þannig stækkað. Tunnurnar sem um ræðir eru stáltunnur sem verða fylltar með grjóti. Þær verða settar upp við enda beggja brimvarnargarðanna. Markmiðið með þessum endurbótunum er að auka öryggi í höfninni og gera nýjum Herjólfi kleift að sigla oftar til Landeyjahafnar en núverandi Herjólfur hefur getað gert.

Áætluð verklok eru 15. september 2019.