Samið um breikkun Reykjanesbrautar

Þann 3. maí sl. skrifuðu Vegagerðin og Ístak undir verksamning um breikkun Reykjanesbrautar. Samningurinn hljóðar upp á liðlega 2 milljarða og er þetta stærsta útboðsverk Vegagerðarinnar í ár.  Áætluð verklok eru 1. nóvember 2020.

Vegarkaflinn sem um ræðir er 3.2 km langur og liggur á milli Krísuvíkurgatnamóta og kirkjugarðsins í Hafnarfirði. Hluti af verkinu er breikkun brúar yfir Strandgötu og gerð tveggja göngubrúa yfir Reykjanesbraut ásamt gerð umtalsverðra hljóðvarna. Þetta er því bæði stórt og fjölbreytt verkefni sem þegar er komið í gang með uppsetningu vinnubúða og öðrum undirbúningi.

Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, og Óskar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni við undirritun samningsins á föstudaginn. MYND: Vegagerðin

 

Reykjanesbrautin eins og hún mun koma til með að líta út. TEIKNING: Vegagerðin

 

 
Verksmiðjubygging fyrir Algaennovation á Hellisheiði

Í október 2018 gekk Ístak frá marksamningi við Algaennovation, sem er Ísraelskt fyrirtæki, um byggingu á lítilli verksmiðju í nýjum jarðhitagarði ON á Hellisheiði.  Verksmiðjan mun framleiða smáþörunga (micro algae) með nýrri tækni og nýta sér heitt vatn og rafmagn frá Hellisheiðarvirkjun.  Verksmiðjan er aðeins tæpir 600 m2, en ráðgert er að hún verði stækkuð umtalsvert ef vel tekst til með fyrsta áfangann.  Byggingin er stálgrindahús með steyptri botnplötu sem grunduð er á staurum þar sem djúpt var á fast.  Arkitektar eru TARK ehf og verkfræðingar Mannvit ehf.  Framkvæmdir hófust í lok árs 2018 við jarðvinnu og niðurrekstur staura.  Undirstöður og botnplata var steypt nú í vetur, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika vegna vetrarveðurs á heiðinni.  Stálvirki eru nú tekin að rísa og er ráðgert að búið verði að loka húsinu innan skamms og að verksmiðjan verði tilbúin sumarið 2019.

Fyrstu stál sperrurnar eru að rísa upp nú í lok mars
Ístaksleikarnir 2019

Ístaksleikarnir 2019 voru haldnir föstudaginn 15.mars s.l. í fyrsta sinn og fóru þeir fram í Vélsmiðjunni á Tungumelum. Markmiðið var að fá starfsmenn Ístaks til að eiga skemmtilegan dag saman í góðra vina hópi og etja kappi í margvíslegum þrautum. Skráning fór fram úr björtustu vonum og voru 14 lið skráð til leiks og um 120 keppendur. Keppt var í 7 þrautum á milli liða og gátu lið verið allt frá 3 manns upp í 10 manns. Þrautirnar sem keppt var í voru Kranafimi, Hamarinn, Búningsklefinn, Pílan, Prjónarnir, Rúmfræðin og Skutlan.

Margir voru forvitnir hvernig þrautirnar yrðu, en þær voru útskýrðar á keppnisdegi sjálfum. Reynt var að hafa þrautirnar þannig að allir gætu keppt og ekki þurfti að æfa sig sérstaklega eða hafa sérstaka kunnáttu til að taka þátt. Boðið var upp á léttar veitingar og gafst starfsmönnum tími til að leika sér og ræða saman.

Keppnin var spennandi en að lokum var ljóst að það var verk 1608-Kleppsbakki sem bar sigur úr býtum og vann liðið út að borða á Hamborgarabúllu Tómasar fyrir verkið sitt sem og ís frá Valdísi. Síðast en ekki síst var þeim afhentur glæsilegur farandbikar, Ístaks Sleggjuna, sem Ægir í Vélsmiðjunni bjó til. Besta hvatningaliðið fékk einnig verðlaun en það hlaut lið skrifstofunnar „Við þarna“.

Ístaksleikarnir er skemmtileg viðbót við félagslíf starfsmanna Ístaks og markmiðið er að gera þetta að árlegum viðburði, hver veit hvaða þrautir verða kynntar til leiks að ári?

Í undirbúningsnefnd voru þau Ásta Ósk Stefánsdóttir, Kristján Finnur Sæmundsson, Halldór Haukur Sigurðsson og Sigríður Lilja Skúladóttir. Kynnir var Gunnar Arnar Gunnarsson. Einnig voru frábærir dómarar fengnir til liðs en það voru þau Víðir Einarsson, Benedikt Geirsson, Anna Jóna Kjartansdóttir, Daði Rúnarsson, Ragnar Snorri Pétursson og einnig var Gísli Guðnason sterkur á krananum.

Í Búningsklefanum var keppt um besta tímann við að galla sig upp.

Lið lagersins „Tilfinningalegt svigrúm“ gerir sig klárt í Prjónana.

„Bleikjurnar“ vinna við að smíða fiskeldiskvíar fyrir Matorku en þeir eru líka ansi sleipir með prjónana.

Rúmfærðiþrautin reyndi á stærðfræðikunnáttuna.

Einbeitingin var allsráðandi í Skutlukeppninni.

Viðhaldsdeildin fékk á baukinn fyrir sérdeilis úrelt slagorð.

Hamarinn reyndist erfiðari en menn hefðu kannski búist við.

Bjarki Iversen starfsmannastjóri og Karl Andreassen framkvæmdastjóri voru ánægðir með daginn.

Lið Kleppsbakka fagnar fræknum sigri og hampar hinum glæsilega verðlaunagrip Ístaks-sleggjunni.

Mikið reyndi á dómara og tímaverði á Ístaksleikunum.

 

 
Húsasmíðaneminn Lárus Helgi Þorsteinsson með meistara sínum hjá Ístaki, Árna Geir Sveinssyni.

Mikilvægt að fá góða iðnmenntaða einstaklinga á vinnumarkaðinn

Ístak leggur mikið upp úr því að fá til sín iðnnema og sér mikinn hag í því að taka sem flesta iðnnema á samning, enda mjög mikilvægt fyrir  fyrirtækið og íslenskt samfélag að fá góða iðnmenntaða einstaklinga á vinnumarkaðinn.

Ístak hefur tekið við nemum í vélvirkjun, járnsmíði, rafvirkjun, múraraiðn og meira að segja námusvein frá Grænlandi, en þar eru jarðvegsiðnaðarmenn sérmenntaðir fyrir námuiðnaðinn.
Á dögunum birtist í Fréttablaðinu skemmtileg umfjöllun um iðnemann Lárus Helga Þorsteinsson sem er húsasmíðanemi hjá okkur og vinnur þessa dagana við nýbyggingu Sorpu á Álfsnesi undir leiðsögn Árna Geirs Sveinssonar, meistara síns hjá Ístaki.

 

(myndir: Anton Brink/Fréttablaðið)

Smellið á mynd til að lesa fréttina.

 

 
Ingibjörg Birna fær vottun sem „Autodesk Certified Professional in Revit Architecture“

Ingibjörg Birna Kjartansdóttir, BIM/VDC þróunarstjóri hjá Ístaki, þreytti á dögunum próf í Danmörku sem veitir henni réttindi sem „Autodesk Certified Professional in Revit Architecture“. Þetta þýðir að Ingibjörg er nú með vottaða yfirgripsmikla sérþekkingu á Revit hugbúnaðinum, en það er BIM-studdur hugbúnaður (BIM stendur fyrir Building Information Modeling) sem notaður er til að búa til upplýsingalíkön af mannvirkjum. Alls þreyttu sex manns prófið, fjórir stóðust það og var Ingibjörg dúxinn í hópnum. Strangar reglur voru í kringum próftökuna og öll hjálpargögn bönnuð, meira að segja skriffæri og reiknivél. Við erum að sjálfsögðu afar stolt af okkar konu sem okkur skilst að sé eini aðilinn á Íslandi með þessi réttindi.
Revit er, eins og áður sagði, BIM studdur hugbúnaður sem er notaður til að búa til upplýsingalíkön í mannvirkjagerð, svokölluð BIM líkön. Þá eru mannvirki teiknuð í 3D og upplýsingum um mannvirkið bætt inn í.  Ístak hóf innleiðingu á BIM í janúar 2017.  Í dag er stór hluti verkefna að nýta sér tækni BIM og segja má að möguleikarnir séu óþrjótandi fyrir vinnustað eins og Ístak. Sem dæmi um verkefni þar sem BIM hefur verið notað með góðum árangri er ný sorpeyðingarstöð í Álfsnesi, Stúdentagarðar við Sæmundargötu, sendiráðið við Engjateig og framkvæmdir við flugstöðina í Keflavík og Brúarvirkjun.

Hjá Ístaki hefur BIM verið notað með góðum árangri. Hér má sjá nýja og fullkomna sorpeyðingarstöð sem nú rís í Álfsnesi.

Stúdentagarðar við Sæmundargötu voru einnig unnir með aðferðarfræði BIM

 

 
Íslenskunámskeið fyrir erlenda starfsmenn Ístaks

Eftir talsverðan undirbúning og tilraunir til að halda íslenskunámskeið fyrir stóran hóp, tókst fyrir áramót að halda íslenskunámskeið fyrir erlenda starfsmenn. Takamarkaður fjöldi komst að í þetta fyrsta skipti og tóku 14 manns þátt. Námskeið var þeim að kostnaðarlausu og óhætt er að segja að þetta hafi mælst vel fyrir hjá þátttakendum.
Námskeiðið var haldið í samstarfi við Múltíkúltí – menningarmiðstöð. Svo vel gekk hjá nemendunum að ákveðið var að halda framhaldsnámskeið strax nú á nýju ári og er það þegar hafið. Verið er að leggja drög að því að halda annað byrjendanámskeið fljótlega og er áhugi erlendra starfsmanna mikill. Ýmis tækifæri bjóðast þeim sem einhverja kunnáttu hafa á tungumálinu sem gerðu það ekki annars. Það er því til mikils að vinna fyrir bæði starfsmenn og fyrirtækið.
Þátttakendur voru gríðarlega áhugasamir og ánægðir með námskeiðið. Ekki var einungis setið yfir bókunum heldur farið í vettvangsferðir, t.d. á borgarbókasafnið og skoðaðar náttúruperlur.
Reynsla okkar er sú að þeim erlendu starfsmönnum sem leggja á sig að læra íslensku vegni betur bæði í starfi og daglegu lífi hér á landi og því er það stefnan að halda áfram að bjóða áhugasömum starfsmönnum upp á slík námskeið í framtíðinni.

Ýmsar aðferðir voru nýttar til þess að læra íslensku, t.d. farið í vettvangsferðir og spiluð spil.
Góður gangur í Reykjanesbæ

Í nóvember 2018 hóf Ístak undirbúning við byggingu nýrrar slökkvistöðvar í Reykjanesbæ en samningurinn var undirritaður um miðjan október.

Verkkaupi er Brunavarnir Suðurnesja og kemur nýja slökkvistöðin til með að leysa þá gömlu af hólmi en nokkuð lengi hefur verið beðið eftir henni. Slökkvistöðin er staðsett við Reykjanesbrautina og kemur til með að þjónusta Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Vogum ásamt mannvirkjum við Leifstöð.

Aðalhönnuðir hússins er Glóra en verkfræðihönnun er í höndum Lotu sem sér um burðarþols -og lagnahönnun.

Slökkvistöðin verður tvískipt bygging og um 2.300 m2 að flatarmáli. Annarsvegar er skrifstofuhúsnæði á tveimur hæðum sem kemur einnig til með að hýsa stjórnstöð fyrir almannavarnir og hinsvegar bílasalur með þvottaaðstöðu og verkstæði.

Úthringur byggingarinnar verða forsteyptar samlokueiningar og í skrifstofuhlutanum verða milliplata og þak úr forsteyptum filigran-plötum. Burðarvirkið í þaki bílasalar verður 22m langir límtrésbitar sem verða klæddir af með yleiningum.

Jarðvegsskipti á byggingareit eru vel á veg komin og í síðastliðinni viku voru fyrstu sökklar í skrifstofubyggingunni steyptir.
(birt 24.1.19)

Grétar verkstjóri og Guðmundur að leggja lokahönd á steypta lyftugryfju í skrifstofubyggingu
Guðlaug á Langasandi formlega opnuð almenningi

Þann 8. desember sl. var Guðlaug á Langasandi á Akranesi formlega tekin í notkun og opnuð almenningi. Ístak sá um smíði og uppsetningu á lauginni en hönnun var í höndum Basalt arkitekta og Mannvits verkfræðistofu.

Guðlaug er á þremur stöllum og staðsett í fjöruborðinu neðan við íþróttasvæði  bæjarins. Hún samanstendur af útsýnispalli efst, heitri laug fyrir neðan og svo grynnri vaðlaug neðst sem nýtir vatn úr yfirfalli heitu laugarinnar. Útsýni er yfir Faxaflóa og til Reykjavíkur. Hæð mannvirkisins er um 6 m yfir meðal stórstreymis flóði og er gert ráð fyrir því að sjór geti flætt inn í vaðlaugina.

Samningur um byggingu Guðlaugar var undirritaður í ágúst 2017 og hófust framkvæmdir fljótlega upp úr því. Byrjað var á að grafa í grjótgarðinn fyrir undirstöðum og þær steyptar mánuði síðar. Grjótgarðurinn var í kjölfarið settur aftur upp fyrir veturinn og hafist handa við að forsteypa einingar mannvirkisins í steypuskála Ístaks. Framkvæmdir hófust á ný í júní síðastliðnum og lauk þeim á haustdögum.

Ístak óskar skagamönnum innilega til hamingju með þessa fallegu laug.
Þrívíddar prentun

Í vélsmiðju Ístaks er fengist við mörg mismunandi og skemmtileg verkefni. Verkstjórinn í smiðjunni Erling Jónsson er 73 ára gamall en framar flestum í innleiðingu nýrrar tækni.
Á dögunum var eitt af verkefnum smiðjunnar að smíða 120 stk. af plastmillileggjum sem hefði tekið langan tíma að smíða í höndum. Erling ákvað að þarna mætti spara tíma og mannskap og mætti með 3D prentarann sinn í vinnuna sem hann lét svo prenta þessi 120 stk. úr plasti. Slíkir prentarar eru sannarlega framtíðin í framleiðslu á hlutum eins og þessum og Erling auðvitað með puttana á púlsinum.
Hålogalandsbrúin opnuð við hátíðlega athöfn í Noregi

Ístak sá um vega- og gangagerð beggja vegna brúarinnar

Hålogalandsbrúin ásamt aðliggjandi vegtengingum og veggöngum var opnuð við hátíðlega athöfn í Narvik í Noregi þann 9. desember 2018.  Forsætisráðherra Noregs Erna Solberg opnaði brúnna að viðstöddum samgönguráðherra, vegamálastjóra og fjölda bæjarbúa í Narvik.  Sjálf brúin er hengibrú 1533 m löng með lengsta haf upp á 1145 m. Ístak sá um alla vegagerð beggja vegna brúarinnar alls um 4,9 km ásamt tvennum stuttum veggöngum sem voru 270 m sunnan brúar og 330 m norðan brúar, auk tveggja minni ganga og bergsala svokallaðra „spredekammer“ þar sem burðarstrengir hengibrúar eru steyptir inn í bergið.  Auk þess byggði Ístak 1100 m löng veggöng í Trældal í nágrenni við brúnna.

Verkefninu, sem kostaði alls um 4 milljarða NOK eða tæpa 60 milljarða ISK, var deilt upp í þrjá megin samninga;  vega- og gangagerð, steypt mannvirki (meginstólpa ásamt tengibrúm að þeim) og stálvirki brúarinnar (brúardekkið og kaplana sem halda brúnni uppi).  Framkvæmdir við heildarverkið stóðu yfir í  6 ár en Ístak hóf framkvæmdir í febrúar 2013 og  lauk sínum verksamning í september 2016. Var það eini verksamningurinn sem var lokið innan tímamarka, en í heild fóru framkvæmdirnar meira en ár fram yfir skiladagsetningu samninga.  Verkefnið var eitt stærsta verkefni Ístaks á erlendri grundu og að því komu fjöldi Ístaksmanna, stjórnendur, gangagerðarmenn, jarðvinnumenn og smiðir ásamt undirverktökum, bæði íslenskum og norskum.