Dráttarbíll frá Öskju

Nýr dráttarbíll

Föstudaginn 20. janúar 2017 afhenti Bílaumboðið Askja ÍSTAKI nýjan dráttarbíl af gerðinni MB Actros 2663.

Dráttarbíllinn er ætlaður til þungaflutninga og er hann sér útbúinn til þeirra.

Myndin sýnir frá því þegar Eiríkur Þór Eiríksson afhenti Birgi Smárasyni, sem verður bílstjóri nýja bílsins, þennan öfluga bíl. Dráttargeta bílsins er 120 tonn og er hann 630 hestöfl.
Lokið við urðunarhólf á Blönduósi

Frá því í lok sumars hefur ÍSTAK unnið við stækkun á sérstöku urðunarhólfi fyrir blandaðan úrgang á Norðurlandi. Í raun var um stækkun á 2. áfanga urðunarhólfs í Stekkjarvík að ræða. Verkkaupi er byggðasamlagið Norðurá bs en ÍSTAK sá um framkvæmdina.

Verkið gekk heilt yfir vel og kláraði ÍSTAK verkið rúmum tveimur vikum á undan áætlun. Áætluð verklok voru samkvæmt samningi 10. desember en lokaúttekt verksins fór fram þann 24.nóvember.

ÍSTAK sá um að grafa, forma og ganga frá urðunarhólfinu en það þjónar m.a. Norðurlandi og Vestfjörðum. Urðunarhólf 1 var við það að fyllast og sá ÍSTAK líka um tilfærslu efna úr hólfi. Búast má við að farið verði í frekari stækkanir á hólfinu í komandi framtíð eða eftir um 7-8 ár.

Myndir frá framkvæmdinni: 

 
Ný skrifstofubygging fyrir Airport Associates

ÍSTAK annast byggingu nýrrar 2600 fermetra skrifstofubyggingar fyrir flugþjónustufyrirtækið Airport Associates. Airport Associates sér um alla þjónustu við farþega- og fraktflugvélar. Svo sem hleðslu flugvéla og annarrar þjónustu á flughlaði, farþegainnritun og flugafgreiðslu.

Nýja byggingin er staðsett við Keflavíkurflugvöll. ÍSTAK er aðalverktaki við bygginguna og byrjaði í ágúst á jarðvinnu og sökklum fyrir bygginguna. ÍSTAK er einnig stýriverktaki á lagnakerfum byggingarinnar sem þýðir að ÍSTAK sér um samskipti og samninga við fyrirtæki sem sjá um lagnakerfin.

Áætluð verklok eru í júní 2017.
ÍSTAK stækkar gröfuflotann sinn

ÍSTAK bætir í flotann sinn

ÍSTAK keypti nýverið tvo 2653 Mercedes Bens Arocs dráttarbíla og þrjá Meiller MHPS malarvagna frá bílaumboðinu Öskju. Þessi tæki verða öll notuð á næstunni við framkvæmdir við Leifsstöð. Bæði vegna stækkunar á flughlöðum og byggingar tengdum framkvæmdum við Leifsstöð.

Einnig hefur ÍSTAK fengið afhenta Volvo L180 hjólaskóflu frá Brimborg. Hún verður  notuð í námu ÍSTAKS í Stapafelli vegna framkvæmda við Leifsstöð.

Síðast en ekki síst afhenti Brimborg einnig Volvo L220 hjólaskóflu sem notuð verður við framkvæmdir hjá Faxaflóahöfnum vegna stækkunar Kleppsbakka í Sundahöfn.

ÍSTAK bætir í flotann sinn
SÁÁ

Ný bygging í fertugs afmælisgjöf

Árið 2017 mun SÁÁ fagna 40 ára afmæli sínu. Á afmælisárinu mun það bera hæst að ný meðferðarstöð verður tekin í notkun. ÍSTAK annast nú byggingu þessarar nýju og fullkomnu meðferðarstöðvar fyrir SÁÁ í landi þeirra á Vík á Kjalarnesi.

ÍSTAK er aðalverktaki að nýju byggingunni og sér um alla jarðvinnu, uppsteypu og frágang utanhús á nýju viðbyggingunni. Áætluð verklok að ytra byrði byggingarinnar eru í febrúar 2017

Nýja og sérhannaða meðferðarstöðin fyrir alla eftirmeðferð á vegum samtakanna verður svo tekin í notkun á 40 ára afmæli samtakanna í október sama ár. Á sama tíma verður meðferð hætt á Staðarfelli. En þar hefur hún verið þá í 37 ár eða frá því 1980.

Myndir teknar á vinnusvæðinu

i-karlabyggingu-saa ur-krana-3-saa SÁÁ
Starfsnám hjá ÍSTAKI

Grænlenskir nemendur í starfsnám hjá ÍSTAKI

Í byrjun október hófu tveir nemar frá Grænlandi 6 mánaða starfsnám hjá ÍSTAKI. Nemarnir stunda nám við Greenland School of Minerals & Petroleum. Þeir hefðu undir vanalegum kringumstæðum farið í starfsnám á Grænlandi hjá námuvinnslu- eða byggingafyrirtæki en í ár gafst þeim ekki færi á því.

Jørgen Petersen, 25 ára frá Narsaq, og Jan Olsen, 26 ára frá Nanortalik, hafa báðir lokið tveimur árum við skólann.  En námið krefst þess að þeir fari út á vinnumarkaðinn til að öðlast nýja þekkingu, reynslu og vinnufærni. Vanalega fara nemar úr skólanum í 2 ára starfsnám til bygginga- eða námuvinnslufyrirtækja á Grænlandi. Í ár var það ekki möguleiki og því hafði skólinn samband við ÍSTAK. ÍSTAK starfar við svipuð skilyrði og raunin er á Grænlandi þ.e þar sem er mikið frost, harðir vetrar og vindasamt.

ÍSTAK tók vel í beiðni skólans og hefur nú verið sett upp samstarfsverkefni milli Greenland School of Minerals & Petroleum og ÍSTAKS til reynslu. ÍSTAK sérhæfir sig í vinnu við virkjanir, hafnir, gangnagerð, vegagerð og brúargerð. ÍSTAK er því tilvalinn vettvangur fyrir nema skólans að öðlast reynslu.

Myndir frá skólanum og starfsnáminu
Fjölskyldudagur ÍSTAKS

Fjölskylduhátíð ÍSTAKS

Laugardaginn, 21. maí síðastliðinn, var fjölskylduhátíð ÍSTAKS haldin í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Mosfellsbæ. Hátíðin var einkar vel sótt og skemmtu allir sér konunglega.

Ratleikir, þrautir, leiktæki, svampakast, klifurturn, hoppukastali og fjölskylduskíði voru meðal afþreyinga sem fjölskyldur tóku þátt í. Flugvélar frá Flugklúbbi Mosfellsbæjar flugu yfir svæðið og dreifðu karamellum og að sjálfsögðu voru líka sumarlegar veitingar eins og grillaðar pylsur og sykurpúðar á boðstólum.
Nýjar gröfur auka framleiðni

ÍSTAK tók nýverið í notkun þrjár nýjar gröfur. Um er að ræða Volvo EC380EL (38-39 tonna) beltagröfu, Volvo EW160E (17-18 tonna) hjólagröfu og Volvo ECR25D mínígröfu. Með þessum kaupum uppfærði ÍSTAK gröfuflotann sinn en í fyrra voru fjórar eldri vélar seldar.

ÍSTAK keypti gröfurnar frá Brimborg og voru þær settar saman eftir óskum ÍSTAKS. Þær eru sum sé með búnaði sem henta þeim aðstæðum sem ÍSTAK starfar í. Þar með eru þær allar ríkulega búnar með öllum þeim aukabúnaði sem þörf er á sem og vinnulýsingu.

„Við völdum Volvo vélarnar því þær eru hagkvæmar í rekstri og eyðslugrannar, að auki eru þær líka umhverfisvænar þar sem þær eru með góðum hreinsibúnaði á útblástri. Aðstaðan fyrir tæknistjóra er mjög góð og er olíumiðstöð til staðar til að halda húsi tækjastjóra heitu án þess að vélin sé í gangi að óþörfu“, segir Dagbjartur Sveinsson, innkaupafulltrúi hjá ÍSTAKI. Nýju gröfurnar munu styrkja enn frekar framleiðni og framleiðslu hjá ÍSTAKI þar sem t.a.m. verður minna um vinnutímatap vegna viðhalds véla.

Gröfurnar eru nú þegar komnar í notkun en beltagrafan verður notuð í sjólögn við Borgarnes til að byrja með, hjólagrafan í Mosfellsbæ og svo fer hún í Reykjanesið vegna stækkunar Leifsstöðvar og mínígrafan er komin í vinnu við stækkun Klettaskóla.
Höfnin í Nuuk stækkuð

Höfnin í Nuuk stækkuð

ÍSTAK og Per Aarsleff eru aðalverktakar við verkið: Höfnin í Nuuk stækkuð. Með hafnargerðinni í Nuuk er verið að tvöfalda bryggjupláss og búa til nýja gámahöfn sem á að verða tilbúin í lok árs. Nýja höfnin verður á tveimur eyjum sem tengdar verða landi með uppfyllingu.

Verkfræðistofan Elfa sér um hönnun bygginga, Ramböll um hönnun hafnarmannvirkja og verkfræðistofan Mannvit leigir út starfsmann til verkeftirlits fyrir verkkaupa.

Vonast er til að stækkun hafnarinnar verði lyftistöng fyrir atvinnulíf Grænlendinga en Stöð 2 fjallaði nýverið um höfnina og tók viðtal við hafnarstjórann Pál Hermannsson en sagði m.a.  „Íslendingar hafa mikla þekkingu í svona verkefnum, í Grænlandi, Færeyjum, Noregi, – svo það er ekkert verið að velja út frá flagginu heldur bara þekkingunni.“

Páll segir einnig í viðtalinu að Nuuk sé miðhöfn Grænlands. Þangað sigla gámaskip til og frá Danmörku og Íslandi með vörur sem fara svo þaðan fara áfram til annarra grænlenskra byggða. Grænlendingar sjá fram á að höfnin skapi ný tækifæri, meðal annars í móttöku skemmtiferðaskipa.
Volkswagen e-golf

Rafmagnað ÍSTAK

ÍSTAK hefur tekið í notkun rafmagnsbílinn Volkswagen e-Golf. Bíllinn er gæddur öllum þeim nútímaþægindum sem bílar hafa nú til dags en er að auki umhverfisvænn.

„Við byrjuðum á að taka einn rafbíl í notkun til að sjá hvernig það hentar starfseminni okkar og erum mjög ánægð með útkomuna. Bíllinn er nettur og þægilegur í akstri og rafmagnið dugar alveg í allt það snatt sem við notum hann í. Þetta er einn af okkar liðum til að hafa góð áhrif á umhverfið okkar og vera umhverfisvæn“, segir Bjarki Þór Iversen, starfsmannastjóri ÍSTAK. Við keyrslu gefa rafbílar engar gróðurhúsalofttegundir frá sér og gefa að jafnaði líka minni hljóðmengun frá sér en venjulegir bílar.

Á höfuðborgarsvæðinu eru nú um sex hleðslustöðvar fyrir rafbíla og fjórar eru á landinu þ.e. Akranesi, Selfossi, Borgarnesi og Reykjanesbæ. Áætlað er að það bætist við fleiri hleðslustöðvar strax í ár og komandi árum og sjá stjórnendur ÍSTAK fram á að með meiri dreifingu hleðslustöðva bætist fleiri rafbílar í bílaflota ÍSTAK.