Hvað er BIM?

Hvað er BIM?

image_pdfimage_print

Ístak hóf innleiðingu á BIM (Building information modeling) í janúar 2017.  Í dag er stór hluti verkefna að nýta sér tækni BIM og segja má að möguleikarnir séu óþrjótandi fyrir vinnustað eins og Ístak.

BIM er skilgreint sem það ferli að hanna og stjórna upplýsingum í framkvæmd, með því að búa til sýndarveruleika af framkvæmd verkefnis, og að geta deilt þeim upplýsingum á milli aðila á rafrænu formi.

Tilgangur BIM er að samhæfa upplýsingar í framkvæmdum ásamt því að auka upplýsingaflæði. Hönnunin er teiknuð upp í BIM líkönum, sem eru í þrívídd.  BIM líkön er svo hægt að skoða í þartilgerðum skoðurum (e. viewers). Hver hlutur í BIM líkani hefur að geyma upplýsingar um sig, t.d. hversu marga fermetra veggurinn er, rúmmálið sem hann tekur, eða hvaða kröfur eru á veggnum, s.s. brunamótstaða eða u-gildi.

Hægt er að líkja hlut í BIM líkani við Lego kubb.

BIM líkön eru unnin í BIM studdum hugbúnaði, s.s. Revit eða Tekla Structures og eru flutt út á IFC skráarsniði sem hægt er að opna í ókeypis skoðurum, s.s. Solibri Model Viewer, BIMcollab Zoom eða Trimble connect. IFC skráarsniðið virkar eins og PDF, ekki er hægt að breyta neinni hönnun á IFC skrá rétt eins og ekki er hægt að breyta texta í PDF skjali, nema að búa til annað skjal. Að geta skoðað hönnun fyrir sér í þrívídd eykur skilning aðila á umfangi verksins.

Matorka, áfangi 2, yfirlitsmynd

Teikningar eru framleiddar eftir líkaninu, þannig að ef að t.d. veggur er færður, uppfærist breytingin á öllum þeim teikningum sem veggurinn kemur fram á, og málsetningin líka. Þetta sparar mikla vinnu við gerð hönnunargagna og eykur gæði þeirra.

Þar sem BIM líkön eru í þrívídd er einnig hægt að framkvæma ýmsar greiningar, s.s. árekstrargreiningar. Líkönin eru þá sameinuð í t.d. Solibri Model Checker, sem greinir hvort einhverjir byggingahlutar eru að rekast á, s.s. sprinkler og loftræsing. Þessar greiningar geta sparað mikla vinnu við samræmingu á hönnun og auka gæði hönnunargagna. Í framkvæmd leiðir þetta af sér að færri villur uppgötvast á verktíma og minni líkur eru á að endurvinna þurfi verkþætti.

Samsett líkan af Helgafellsskóla

BIM líkön er einnig hægt að nota í magntökur (e. Information Quantity Take-Off). Líkönum er þá hlaðið upp í t.d. Solibri Model Checker og þar eru skilgreindar ákveðnar magntökur, t.d. allir veggir á tilteknu svæði, og úr verður skjal með t.d. rúmmetrum af steypu eða flatarmáli á veggjum. Eins birtast sömu hlutir í sama lit, sem auðveldar yfirsýn yfir það hvað magntalan inniheldur.

Magntaka af tilteknu svæði við Sorpeyðinarstöð á Álfsnesi

BIM deild Ístaks gegnir því hlutverki að þróa og innleiða BIM, ásamt því að leysa ýmis verkefni tengd upplýsinga- og samskiptatækni í mannvirkjagerð.  Nánari upplýsingar er hægt að nálgast hjá starfsmönnum deildarinnar í síma 530 2700.

14. ágúst 2018