Ístak byggir Hús íslenskunnar

Í dag var undirritaður samningur vegna Húss íslenskunnar.
Undirritunin fór fram á verkstað og voru það þau Lilja Alfreðsdóttir mennta- og
menningarmálaráðherra, Guðrún Ingvarsdóttir forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins
og Karl Andreassen framkvæmdastjóri ÍSTAKS sem undirrituðu samninginn.
ÍSTAK hefur nú þegar hafið vinnu á svæðinu og undanfarnar vikur hefur vinna við
grunninn verið í fullum gangi.

Hús íslenskunnar mun hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna
Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Það
verður á þremur hæðum auk kjallara undir hluta hússins og opins bílakjallara.

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með byggingu hússins, ÍSTAK
er aðalverktaki þess og verkfræðistofan Efla hefur með höndum
framkvæmdaeftirlit og byggingastjórn. Aðalhönnuðir byggingarinnar eru
Hornsteinar arkitektar ehf.

Frá undirritun samningsins á verkstað.
Verksmiðjubygging fyrir Algaennovation á Hellisheiði

Í október 2018 gekk Ístak frá marksamningi við Algaennovation, sem er Ísraelskt fyrirtæki, um byggingu á lítilli verksmiðju í nýjum jarðhitagarði ON á Hellisheiði.  Verksmiðjan mun framleiða smáþörunga (micro algae) með nýrri tækni og nýta sér heitt vatn og rafmagn frá Hellisheiðarvirkjun.  Verksmiðjan er aðeins tæpir 600 m2, en ráðgert er að hún verði stækkuð umtalsvert ef vel tekst til með fyrsta áfangann.  Byggingin er stálgrindahús með steyptri botnplötu sem grunduð er á staurum þar sem djúpt var á fast.  Arkitektar eru TARK ehf og verkfræðingar Mannvit ehf.  Framkvæmdir hófust í lok árs 2018 við jarðvinnu og niðurrekstur staura.  Undirstöður og botnplata var steypt nú í vetur, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika vegna vetrarveðurs á heiðinni.  Stálvirki eru nú tekin að rísa og er ráðgert að búið verði að loka húsinu innan skamms og að verksmiðjan verði tilbúin sumarið 2019.

Fyrstu stál sperrurnar eru að rísa upp nú í lok mars
Ístaksleikarnir 2019

Ístaksleikarnir 2019 voru haldnir föstudaginn 15.mars s.l. í fyrsta sinn og fóru þeir fram í Vélsmiðjunni á Tungumelum. Markmiðið var að fá starfsmenn Ístaks til að eiga skemmtilegan dag saman í góðra vina hópi og etja kappi í margvíslegum þrautum. Skráning fór fram úr björtustu vonum og voru 14 lið skráð til leiks og um 120 keppendur. Keppt var í 7 þrautum á milli liða og gátu lið verið allt frá 3 manns upp í 10 manns. Þrautirnar sem keppt var í voru Kranafimi, Hamarinn, Búningsklefinn, Pílan, Prjónarnir, Rúmfræðin og Skutlan.

Margir voru forvitnir hvernig þrautirnar yrðu, en þær voru útskýrðar á keppnisdegi sjálfum. Reynt var að hafa þrautirnar þannig að allir gætu keppt og ekki þurfti að æfa sig sérstaklega eða hafa sérstaka kunnáttu til að taka þátt. Boðið var upp á léttar veitingar og gafst starfsmönnum tími til að leika sér og ræða saman.

Keppnin var spennandi en að lokum var ljóst að það var verk 1608-Kleppsbakki sem bar sigur úr býtum og vann liðið út að borða á Hamborgarabúllu Tómasar fyrir verkið sitt sem og ís frá Valdísi. Síðast en ekki síst var þeim afhentur glæsilegur farandbikar, Ístaks Sleggjuna, sem Ægir í Vélsmiðjunni bjó til. Besta hvatningaliðið fékk einnig verðlaun en það hlaut lið skrifstofunnar „Við þarna“.

Ístaksleikarnir er skemmtileg viðbót við félagslíf starfsmanna Ístaks og markmiðið er að gera þetta að árlegum viðburði, hver veit hvaða þrautir verða kynntar til leiks að ári?

Í undirbúningsnefnd voru þau Ásta Ósk Stefánsdóttir, Kristján Finnur Sæmundsson, Halldór Haukur Sigurðsson og Sigríður Lilja Skúladóttir. Kynnir var Gunnar Arnar Gunnarsson. Einnig voru frábærir dómarar fengnir til liðs en það voru þau Víðir Einarsson, Benedikt Geirsson, Anna Jóna Kjartansdóttir, Daði Rúnarsson, Ragnar Snorri Pétursson og einnig var Gísli Guðnason sterkur á krananum.

Í Búningsklefanum var keppt um besta tímann við að galla sig upp.

Lið lagersins „Tilfinningalegt svigrúm“ gerir sig klárt í Prjónana.

„Bleikjurnar“ vinna við að smíða fiskeldiskvíar fyrir Matorku en þeir eru líka ansi sleipir með prjónana.

Rúmfærðiþrautin reyndi á stærðfræðikunnáttuna.

Einbeitingin var allsráðandi í Skutlukeppninni.

Viðhaldsdeildin fékk á baukinn fyrir sérdeilis úrelt slagorð.

Hamarinn reyndist erfiðari en menn hefðu kannski búist við.

Bjarki Iversen starfsmannastjóri og Karl Andreassen framkvæmdastjóri voru ánægðir með daginn.

Lið Kleppsbakka fagnar fræknum sigri og hampar hinum glæsilega verðlaunagrip Ístaks-sleggjunni.

Mikið reyndi á dómara og tímaverði á Ístaksleikunum.

 

 
Ingibjörg Birna fær vottun sem „Autodesk Certified Professional in Revit Architecture“

Ingibjörg Birna Kjartansdóttir, BIM/VDC þróunarstjóri hjá Ístaki, þreytti á dögunum próf í Danmörku sem veitir henni réttindi sem „Autodesk Certified Professional in Revit Architecture“. Þetta þýðir að Ingibjörg er nú með vottaða yfirgripsmikla sérþekkingu á Revit hugbúnaðinum, en það er BIM-studdur hugbúnaður (BIM stendur fyrir Building Information Modeling) sem notaður er til að búa til upplýsingalíkön af mannvirkjum. Alls þreyttu sex manns prófið, fjórir stóðust það og var Ingibjörg dúxinn í hópnum. Strangar reglur voru í kringum próftökuna og öll hjálpargögn bönnuð, meira að segja skriffæri og reiknivél. Við erum að sjálfsögðu afar stolt af okkar konu sem okkur skilst að sé eini aðilinn á Íslandi með þessi réttindi.
Revit er, eins og áður sagði, BIM studdur hugbúnaður sem er notaður til að búa til upplýsingalíkön í mannvirkjagerð, svokölluð BIM líkön. Þá eru mannvirki teiknuð í 3D og upplýsingum um mannvirkið bætt inn í.  Ístak hóf innleiðingu á BIM í janúar 2017.  Í dag er stór hluti verkefna að nýta sér tækni BIM og segja má að möguleikarnir séu óþrjótandi fyrir vinnustað eins og Ístak. Sem dæmi um verkefni þar sem BIM hefur verið notað með góðum árangri er ný sorpeyðingarstöð í Álfsnesi, Stúdentagarðar við Sæmundargötu, sendiráðið við Engjateig og framkvæmdir við flugstöðina í Keflavík og Brúarvirkjun.

Hjá Ístaki hefur BIM verið notað með góðum árangri. Hér má sjá nýja og fullkomna sorpeyðingarstöð sem nú rís í Álfsnesi.

Stúdentagarðar við Sæmundargötu voru einnig unnir með aðferðarfræði BIM

 

 
Góður gangur í Reykjanesbæ

Í nóvember 2018 hóf Ístak undirbúning við byggingu nýrrar slökkvistöðvar í Reykjanesbæ en samningurinn var undirritaður um miðjan október.

Verkkaupi er Brunavarnir Suðurnesja og kemur nýja slökkvistöðin til með að leysa þá gömlu af hólmi en nokkuð lengi hefur verið beðið eftir henni. Slökkvistöðin er staðsett við Reykjanesbrautina og kemur til með að þjónusta Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Vogum ásamt mannvirkjum við Leifstöð.

Aðalhönnuðir hússins er Glóra en verkfræðihönnun er í höndum Lotu sem sér um burðarþols -og lagnahönnun.

Slökkvistöðin verður tvískipt bygging og um 2.300 m2 að flatarmáli. Annarsvegar er skrifstofuhúsnæði á tveimur hæðum sem kemur einnig til með að hýsa stjórnstöð fyrir almannavarnir og hinsvegar bílasalur með þvottaaðstöðu og verkstæði.

Úthringur byggingarinnar verða forsteyptar samlokueiningar og í skrifstofuhlutanum verða milliplata og þak úr forsteyptum filigran-plötum. Burðarvirkið í þaki bílasalar verður 22m langir límtrésbitar sem verða klæddir af með yleiningum.

Jarðvegsskipti á byggingareit eru vel á veg komin og í síðastliðinni viku voru fyrstu sökklar í skrifstofubyggingunni steyptir.
(birt 24.1.19)

Grétar verkstjóri og Guðmundur að leggja lokahönd á steypta lyftugryfju í skrifstofubyggingu
Hålogalandsbrúin opnuð við hátíðlega athöfn í Noregi

Ístak sá um vega- og gangagerð beggja vegna brúarinnar

Hålogalandsbrúin ásamt aðliggjandi vegtengingum og veggöngum var opnuð við hátíðlega athöfn í Narvik í Noregi þann 9. desember 2018.  Forsætisráðherra Noregs Erna Solberg opnaði brúnna að viðstöddum samgönguráðherra, vegamálastjóra og fjölda bæjarbúa í Narvik.  Sjálf brúin er hengibrú 1533 m löng með lengsta haf upp á 1145 m. Ístak sá um alla vegagerð beggja vegna brúarinnar alls um 4,9 km ásamt tvennum stuttum veggöngum sem voru 270 m sunnan brúar og 330 m norðan brúar, auk tveggja minni ganga og bergsala svokallaðra „spredekammer“ þar sem burðarstrengir hengibrúar eru steyptir inn í bergið.  Auk þess byggði Ístak 1100 m löng veggöng í Trældal í nágrenni við brúnna.

Verkefninu, sem kostaði alls um 4 milljarða NOK eða tæpa 60 milljarða ISK, var deilt upp í þrjá megin samninga;  vega- og gangagerð, steypt mannvirki (meginstólpa ásamt tengibrúm að þeim) og stálvirki brúarinnar (brúardekkið og kaplana sem halda brúnni uppi).  Framkvæmdir við heildarverkið stóðu yfir í  6 ár en Ístak hóf framkvæmdir í febrúar 2013 og  lauk sínum verksamning í september 2016. Var það eini verksamningurinn sem var lokið innan tímamarka, en í heild fóru framkvæmdirnar meira en ár fram yfir skiladagsetningu samninga.  Verkefnið var eitt stærsta verkefni Ístaks á erlendri grundu og að því komu fjöldi Ístaksmanna, stjórnendur, gangagerðarmenn, jarðvinnumenn og smiðir ásamt undirverktökum, bæði íslenskum og norskum.
Nýr hafnargarður við gömlu höfnina í Reykjavík

Vinna við 2. áfanga Norðurgarðs við gömlu höfnina í Reykjavík er nú lokið. Verkið var unnið fyrir Faxaflóahafnir og HB-Granda og fólst í því að byggja nýjan hafnarbakka fyrir framan frystihús HB-Granda.

Lengd nýja hafnarbakkans er 120 metrar. Verkefni Ístaks voru að rífa gamla trébryggju sem var fyrir, reka niður stálþil fyrir nýjan hafnarbakka, steypa kant á stálþilið ásamt frágangi á pollum, kantré og stigum. Í verkinu fólst einnig vinna við að steypa þekju með snjóbræðslukerfi á milli frystihúss og hafnarbakka. Framkvæmdir hófust í júní 2017 og lauk í september 2018.

Við stálþilsreksturinn var Ístak í samstarfi við móðurfélag sitt Per Aarsleff í Danmörku sem lagði til menn og búnað, en sá hópur hafði nýlokið niðurrekstri á stálþili í verkefni Ístaks á Kleppsbakka þar sem verkkaupi er einnig Faxaflóahafnir. Niðurreksturinn gekk mjög vel og hafði eftirlitsmaður Faxaflóahafna orð á því að hann hafi aldrei séð jafn flott og beint niðurrekið stálþil.

Svona leit hafnarbakkinn út áður en framkvæmdir hófust.

Að loknum framkvæmdum.

Niðurrekstur á stálþilinu gekk vel með aðstoð hóps og búnaði frá Per Aarsleff.
Vel gengur að reisa nýtt og fullkomið fiskvinnsluhús G. Run í Grundarfirði.

Fyrr á árinu hóf Ístak vinnu við nýtt og fullkomið fiskvinnsluhús G. Run í Grundarfirði. Framkvæmdir hafa gengið vel og stefnt er að því að vinnsla hefjist þar strax í byrjun nýs árs. Vinnsluhúsið verður búið fullkomnum tækjabúnaði til bolfiskvinnslu og eftir stækkunina verður hægt að vinna 75-80% meira magn en í núverandi húsnæði, en með svipuðum fjölda starfsfólks. Ístak hefur séð alfarið um framkvæmdirnar með aðstoð ýmissa undirverktaka og hefur verkið gengið hratt og vel fyrir sig. Eins og áður sagði er stefnt að því að hefja vinnslu í nýja húsinu strax í byrjun næsta árs og er allt útlit fyrir að það gangi eftir.
Heldri Ístaksmenn hittast í hádegismat

Fyrsti föstudagur í hverjum mánuði er sannkallaður hátíðisdagur fyrir marga hér í höfuðstöðvum Ístaks, en þá er alla jafna kótilettudagur í mötuneytinu hjá Rósu. Sú skemmtilega hefð hefur skapast í fyrirtækinu að á þessum dögum mætir hópur heldri manna í hádegismat og borðar saman hjá okkur. Um er að ræða fyrrverandi starfsmenn sem gengt hafa lykilstöðum í fyrirtækinu í áranna rás en eru nú farnir að taka lífinu með meiri ró. Þegar við smelltum af mynd voru þeir félagar Hörður, Gunni, Sævar, Steini, Nenni, Hannes og Allan mættir í mat og átti þá eftir að bætast í hópinn. Það er því góður hópur gamalla félaga á ferli í mötuneytinu þegar kótilettur og tilbehør eru á boðstólum hér í Bugðufljóti.

Heldri Ístaksmenn mættir í kótiletturnar, frá vinstri: Hörður Sigmundsson, Gunnar Sigurbjörnsson, Sævar Kristbjörnsson, Þorsteinn Árnason, Steinar Kristbjörnsson, Hannes Benediktsson og Allan Sveinbjörnsson.
Anna Jóna Kjartansdóttir nýr gæða- og öryggisstjóri

Anna Jóna Kjartansdóttir hefur tekið við starfi gæða- og öryggisstjóra hjá Ístaki. Anna Jóna kemur úr samskonar starfi hjá Jarðborunum og hefur unnið í gæða og öryggismálum síðan 2011. Hún er byggingaverkfræðingur að mennt og útskrifaðist frá Háskóla Íslands & DTU í Danmörku. Fyrir utan að hafa starfað hjá Jarðborunum hefur Anna Jóna unnið hjá Mannviti sem verkefnastjóri og umsjónarmaður með umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi Mannvits. Við bjóðum Önnu Jónu hjartanlega velkomna til starfa hjá fyrirtækinu.

Anna Jóna Kjartansdóttir gæða- og öryggisstjóri Ístaks