Samið um breikkun Reykjanesbrautar

Þann 3. maí sl. skrifuðu Vegagerðin og Ístak undir verksamning um breikkun Reykjanesbrautar. Samningurinn hljóðar upp á liðlega 2 milljarða og er þetta stærsta útboðsverk Vegagerðarinnar í ár.  Áætluð verklok eru 1. nóvember 2020.

Vegarkaflinn sem um ræðir er 3.2 km langur og liggur á milli Krísuvíkurgatnamóta og kirkjugarðsins í Hafnarfirði. Hluti af verkinu er breikkun brúar yfir Strandgötu og gerð tveggja göngubrúa yfir Reykjanesbraut ásamt gerð umtalsverðra hljóðvarna. Þetta er því bæði stórt og fjölbreytt verkefni sem þegar er komið í gang með uppsetningu vinnubúða og öðrum undirbúningi.

Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, og Óskar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni við undirritun samningsins á föstudaginn. MYND: Vegagerðin

 

Reykjanesbrautin eins og hún mun koma til með að líta út. TEIKNING: Vegagerðin

 

 
Húsasmíðaneminn Lárus Helgi Þorsteinsson með meistara sínum hjá Ístaki, Árna Geir Sveinssyni.

Mikilvægt að fá góða iðnmenntaða einstaklinga á vinnumarkaðinn

Ístak leggur mikið upp úr því að fá til sín iðnnema og sér mikinn hag í því að taka sem flesta iðnnema á samning, enda mjög mikilvægt fyrir  fyrirtækið og íslenskt samfélag að fá góða iðnmenntaða einstaklinga á vinnumarkaðinn.

Ístak hefur tekið við nemum í vélvirkjun, járnsmíði, rafvirkjun, múraraiðn og meira að segja námusvein frá Grænlandi, en þar eru jarðvegsiðnaðarmenn sérmenntaðir fyrir námuiðnaðinn.
Á dögunum birtist í Fréttablaðinu skemmtileg umfjöllun um iðnemann Lárus Helga Þorsteinsson sem er húsasmíðanemi hjá okkur og vinnur þessa dagana við nýbyggingu Sorpu á Álfsnesi undir leiðsögn Árna Geirs Sveinssonar, meistara síns hjá Ístaki.

 

(myndir: Anton Brink/Fréttablaðið)

Smellið á mynd til að lesa fréttina.

 

 
Íslenskunámskeið fyrir erlenda starfsmenn Ístaks

Eftir talsverðan undirbúning og tilraunir til að halda íslenskunámskeið fyrir stóran hóp, tókst fyrir áramót að halda íslenskunámskeið fyrir erlenda starfsmenn. Takamarkaður fjöldi komst að í þetta fyrsta skipti og tóku 14 manns þátt. Námskeið var þeim að kostnaðarlausu og óhætt er að segja að þetta hafi mælst vel fyrir hjá þátttakendum.
Námskeiðið var haldið í samstarfi við Múltíkúltí – menningarmiðstöð. Svo vel gekk hjá nemendunum að ákveðið var að halda framhaldsnámskeið strax nú á nýju ári og er það þegar hafið. Verið er að leggja drög að því að halda annað byrjendanámskeið fljótlega og er áhugi erlendra starfsmanna mikill. Ýmis tækifæri bjóðast þeim sem einhverja kunnáttu hafa á tungumálinu sem gerðu það ekki annars. Það er því til mikils að vinna fyrir bæði starfsmenn og fyrirtækið.
Þátttakendur voru gríðarlega áhugasamir og ánægðir með námskeiðið. Ekki var einungis setið yfir bókunum heldur farið í vettvangsferðir, t.d. á borgarbókasafnið og skoðaðar náttúruperlur.
Reynsla okkar er sú að þeim erlendu starfsmönnum sem leggja á sig að læra íslensku vegni betur bæði í starfi og daglegu lífi hér á landi og því er það stefnan að halda áfram að bjóða áhugasömum starfsmönnum upp á slík námskeið í framtíðinni.

Ýmsar aðferðir voru nýttar til þess að læra íslensku, t.d. farið í vettvangsferðir og spiluð spil.
Guðlaug á Langasandi formlega opnuð almenningi

Þann 8. desember sl. var Guðlaug á Langasandi á Akranesi formlega tekin í notkun og opnuð almenningi. Ístak sá um smíði og uppsetningu á lauginni en hönnun var í höndum Basalt arkitekta og Mannvits verkfræðistofu.

Guðlaug er á þremur stöllum og staðsett í fjöruborðinu neðan við íþróttasvæði  bæjarins. Hún samanstendur af útsýnispalli efst, heitri laug fyrir neðan og svo grynnri vaðlaug neðst sem nýtir vatn úr yfirfalli heitu laugarinnar. Útsýni er yfir Faxaflóa og til Reykjavíkur. Hæð mannvirkisins er um 6 m yfir meðal stórstreymis flóði og er gert ráð fyrir því að sjór geti flætt inn í vaðlaugina.

Samningur um byggingu Guðlaugar var undirritaður í ágúst 2017 og hófust framkvæmdir fljótlega upp úr því. Byrjað var á að grafa í grjótgarðinn fyrir undirstöðum og þær steyptar mánuði síðar. Grjótgarðurinn var í kjölfarið settur aftur upp fyrir veturinn og hafist handa við að forsteypa einingar mannvirkisins í steypuskála Ístaks. Framkvæmdir hófust á ný í júní síðastliðnum og lauk þeim á haustdögum.

Ístak óskar skagamönnum innilega til hamingju með þessa fallegu laug.
Þrívíddar prentun

Í vélsmiðju Ístaks er fengist við mörg mismunandi og skemmtileg verkefni. Verkstjórinn í smiðjunni Erling Jónsson er 73 ára gamall en framar flestum í innleiðingu nýrrar tækni.
Á dögunum var eitt af verkefnum smiðjunnar að smíða 120 stk. af plastmillileggjum sem hefði tekið langan tíma að smíða í höndum. Erling ákvað að þarna mætti spara tíma og mannskap og mætti með 3D prentarann sinn í vinnuna sem hann lét svo prenta þessi 120 stk. úr plasti. Slíkir prentarar eru sannarlega framtíðin í framleiðslu á hlutum eins og þessum og Erling auðvitað með puttana á púlsinum.
Hålogalandsbrúin opnuð við hátíðlega athöfn í Noregi

Ístak sá um vega- og gangagerð beggja vegna brúarinnar

Hålogalandsbrúin ásamt aðliggjandi vegtengingum og veggöngum var opnuð við hátíðlega athöfn í Narvik í Noregi þann 9. desember 2018.  Forsætisráðherra Noregs Erna Solberg opnaði brúnna að viðstöddum samgönguráðherra, vegamálastjóra og fjölda bæjarbúa í Narvik.  Sjálf brúin er hengibrú 1533 m löng með lengsta haf upp á 1145 m. Ístak sá um alla vegagerð beggja vegna brúarinnar alls um 4,9 km ásamt tvennum stuttum veggöngum sem voru 270 m sunnan brúar og 330 m norðan brúar, auk tveggja minni ganga og bergsala svokallaðra „spredekammer“ þar sem burðarstrengir hengibrúar eru steyptir inn í bergið.  Auk þess byggði Ístak 1100 m löng veggöng í Trældal í nágrenni við brúnna.

Verkefninu, sem kostaði alls um 4 milljarða NOK eða tæpa 60 milljarða ISK, var deilt upp í þrjá megin samninga;  vega- og gangagerð, steypt mannvirki (meginstólpa ásamt tengibrúm að þeim) og stálvirki brúarinnar (brúardekkið og kaplana sem halda brúnni uppi).  Framkvæmdir við heildarverkið stóðu yfir í  6 ár en Ístak hóf framkvæmdir í febrúar 2013 og  lauk sínum verksamning í september 2016. Var það eini verksamningurinn sem var lokið innan tímamarka, en í heild fóru framkvæmdirnar meira en ár fram yfir skiladagsetningu samninga.  Verkefnið var eitt stærsta verkefni Ístaks á erlendri grundu og að því komu fjöldi Ístaksmanna, stjórnendur, gangagerðarmenn, jarðvinnumenn og smiðir ásamt undirverktökum, bæði íslenskum og norskum.
Golfmót í Grundarfirði

Á haustdögum hélt Ístak, í samstarfi við heimamenn, golfmót á Bárarvelli í Grundarfirði. Fyrirkomulagið var svokallað Texas Scramble og spilaðar 18 holur. Mótið tókst vel og var hið skemmtilegasta.
Skemmst er frá því að segja að heimamenn tóku Ístaksfólk í bakaríið og hirtu öll verðlaun sem í boði voru. Allir skemmtu sér þó vel og aðkomumenn áttu góðan dag í hinum fallega firði.
Í Grundarfirði vinnur Ístak nú að því að byggja nýtt og fullkomið fiskvinnsluhús fyrir G. Run og gengur verkið vel. Stefnt er að því að taka húsið í notkun í byrjun nýs árs.
Brunavarnir Suðurnesja og ÍSTAK undirrita samning um nýja slökkvistöð

Þann 17. október sl. var undirritaður samningur á milli Ístaks og Brunavarna Suðurnesja um byggingu nýrrar slökkvistöðvar í Reykjanesbæ. Áætlað er að stöðin verði tekin í notkun í lok nóvember á næsta ári.
Stöðin verður á tveimur hæðum, um 2250 m2 að gólffleti og auk slökkviðstöðvar verður aðgerðarstjórnstöð fyrir almannavarnir í húsinu. Staðsetning stöðvarinnar er við Flugvelli, ofan Iðuvalla og er því miðsvæðis þegar horft er til þjónustusvæðis Brunavarna Suðurnesja sem nær frá Reykjanesbæ, í Sandgerði, Garð og Voga. Eins er stutt í flugstöðina, en mikil aukning hefur orðið á sjúkraflutningum í tengslum við aukinn ferðamannastraum til landsins.
Núverandi húsnæði er orðið 50 ára gamalt og uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til slíkra bygginga í dag og því mun öll aðstaða gjörbreytast með nýju stöðinni.

Við undirritun samningsins, (frá vinstri) Friðjón Einarsson, stjórnarformaður Brunavarna Suðurnesja, Brynjar Brjánsson og Karl Andreassen frá Ístaki, Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóri og Sigurður Skarphéðinsson aðstoðarslökkviliðsstjóri.
Höfnin í Nuuk stækkuð

Höfnin í Nuuk stækkuð

ÍSTAK og Per Aarsleff eru aðalverktakar við verkið: Höfnin í Nuuk stækkuð. Með hafnargerðinni í Nuuk er verið að tvöfalda bryggjupláss og búa til nýja gámahöfn sem á að verða tilbúin í lok árs. Nýja höfnin verður á tveimur eyjum sem tengdar verða landi með uppfyllingu.

Verkfræðistofan Elfa sér um hönnun bygginga, Ramböll um hönnun hafnarmannvirkja og verkfræðistofan Mannvit leigir út starfsmann til verkeftirlits fyrir verkkaupa.

Vonast er til að stækkun hafnarinnar verði lyftistöng fyrir atvinnulíf Grænlendinga en Stöð 2 fjallaði nýverið um höfnina og tók viðtal við hafnarstjórann Pál Hermannsson en sagði m.a.  „Íslendingar hafa mikla þekkingu í svona verkefnum, í Grænlandi, Færeyjum, Noregi, – svo það er ekkert verið að velja út frá flagginu heldur bara þekkingunni.“

Páll segir einnig í viðtalinu að Nuuk sé miðhöfn Grænlands. Þangað sigla gámaskip til og frá Danmörku og Íslandi með vörur sem fara svo þaðan fara áfram til annarra grænlenskra byggða. Grænlendingar sjá fram á að höfnin skapi ný tækifæri, meðal annars í móttöku skemmtiferðaskipa.
ÍSTAK reisir hljóðdempandi

ÍSTAK reisir hljóðdempandi vegg

ÍSTAK reisir hljóðdempandi vegg úr forsteyptum einingum við tengivirki Landsnet í Hamranesi. Veggurinn er framan við spennana við hlið tengivirkisins og er reistur til að draga úr nið sem berst frá þeim. Veggurinn er með steinull á þeirri hlið sem snýr að spennunum sem dempar bæði hávaða og dregur úr endurkasti.

Það er von Landsnets að þessar aðgerðir dugi vel og bæti hljóðvistina á svæðinu til muna en ráðist var í þær í samráði við íbúasamtök á Völlunum og bæjaryfirvöld í Hafnarfirði, í kjölfar samkomulags sumarið 2015 milli þessara aðila um að fjarlægja Hamraneslínur 1 og 2 eigi síðar en í árslok 2018. Byggð í Hafnafirði hefur þróast að línunum á undanförnum árum og voru íbúar á svæðinu ekki sáttir við sambýlið við þær auk þess sem þeir kvörtuðu einnig undan þungum nið frá spennunum við hlið tengivirkisins í Hamranesi.

Eftir ýtarlegar mælingar og greiningu á vandanum var ákveðið að hækka hljóðmönina við tengivirkið um tvo og hálfan metra og byggja hljóðeinangrandi vegg framan við spennana. Sjá frétt Landsnets um verkið.