ÍSTAK byggir stærstu stúdentagarða á Íslandi

ÍSTAK byggir stærstu stúdentagarða á Íslandi

image_pdfimage_print

ÍSTAK og Félagsstofnun stúdenta hafa undirritað samning um byggingu stúdentagarða á lóð HÍ við Sæmundargötu 21 í Reykjavík.  Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist um áramótin 2017/2018 en verktími er um 2 ár.  Kostnaður við fullbúið verk er áætlaður 4,6 milljarðar.

Nýi stúdentagarðurinn verður stærsti sinnar tegundar á Íslandi, með fullbúnum 250 leigueiningum fyrir pör og einstaklinga. Paraíbúðirnar verða 37 fermetrar að stærð og einstaklingsíbúðirnar 27 fermetrar. Þá verður nýtt íbúðaform á görðunum; átta til níu herbergja íbúðir sem skipulagðar eru eftir hugmyndafræði deilihúsnæðis. Í þessum íbúðum verða sautján fermetra svefnherbergi með sérbaðherbergi en hver íbúð deilir með sér forstofu, eldhúsi, setustofu og alrými. Með þessu er byggingarkostnaði haldið niðri og dregið úr félagslegri einangrun fólks. Hugmyndafræði deilihúsnæðis er að ryðja sér til rúms í Evrópu og Bandaríkjunum, sérstaklega meðal ungs fólks.

Karl Andreason framkvæmdastjóri ÍSTAK segir þetta vera mikið og stórt framtak hjá FS og aðdáunarvert að sjá hvernig sjálfseignarstofnum hefur byggt upp svo öflugt leigufélag sem FS er. Verkið sjálft er krefjandi bæði í hönnun og framkvæmd og ÍSTAK hefur fengið til liðs við sig Yrki Arkitekta, Lotu og VHÁ verkfræðistofur við hönnun byggingarinnar. Verkið fellur einnig vel að verkefnaflóru ÍSTAKS sem nú er með um 370 starfsmenn og sterka og víðtæka verkefnastöðu.