Ístaksleikarnir 2019

Ístaksleikarnir 2019

image_pdfimage_print

Ístaksleikarnir 2019 voru haldnir föstudaginn 15.mars s.l. í fyrsta sinn og fóru þeir fram í Vélsmiðjunni á Tungumelum. Markmiðið var að fá starfsmenn Ístaks til að eiga skemmtilegan dag saman í góðra vina hópi og etja kappi í margvíslegum þrautum. Skráning fór fram úr björtustu vonum og voru 14 lið skráð til leiks og um 120 keppendur. Keppt var í 7 þrautum á milli liða og gátu lið verið allt frá 3 manns upp í 10 manns. Þrautirnar sem keppt var í voru Kranafimi, Hamarinn, Búningsklefinn, Pílan, Prjónarnir, Rúmfræðin og Skutlan.

Margir voru forvitnir hvernig þrautirnar yrðu, en þær voru útskýrðar á keppnisdegi sjálfum. Reynt var að hafa þrautirnar þannig að allir gætu keppt og ekki þurfti að æfa sig sérstaklega eða hafa sérstaka kunnáttu til að taka þátt. Boðið var upp á léttar veitingar og gafst starfsmönnum tími til að leika sér og ræða saman.

Keppnin var spennandi en að lokum var ljóst að það var verk 1608-Kleppsbakki sem bar sigur úr býtum og vann liðið út að borða á Hamborgarabúllu Tómasar fyrir verkið sitt sem og ís frá Valdísi. Síðast en ekki síst var þeim afhentur glæsilegur farandbikar, Ístaks Sleggjuna, sem Ægir í Vélsmiðjunni bjó til. Besta hvatningaliðið fékk einnig verðlaun en það hlaut lið skrifstofunnar „Við þarna“.

Ístaksleikarnir er skemmtileg viðbót við félagslíf starfsmanna Ístaks og markmiðið er að gera þetta að árlegum viðburði, hver veit hvaða þrautir verða kynntar til leiks að ári?

Í undirbúningsnefnd voru þau Ásta Ósk Stefánsdóttir, Kristján Finnur Sæmundsson, Halldór Haukur Sigurðsson og Sigríður Lilja Skúladóttir. Kynnir var Gunnar Arnar Gunnarsson. Einnig voru frábærir dómarar fengnir til liðs en það voru þau Víðir Einarsson, Benedikt Geirsson, Anna Jóna Kjartansdóttir, Daði Rúnarsson, Ragnar Snorri Pétursson og einnig var Gísli Guðnason sterkur á krananum.

Í Búningsklefanum var keppt um besta tímann við að galla sig upp.

Lið lagersins „Tilfinningalegt svigrúm“ gerir sig klárt í Prjónana.

„Bleikjurnar“ vinna við að smíða fiskeldiskvíar fyrir Matorku en þeir eru líka ansi sleipir með prjónana.

Rúmfærðiþrautin reyndi á stærðfræðikunnáttuna.

Einbeitingin var allsráðandi í Skutlukeppninni.

Viðhaldsdeildin fékk á baukinn fyrir sérdeilis úrelt slagorð.

Hamarinn reyndist erfiðari en menn hefðu kannski búist við.

Bjarki Iversen starfsmannastjóri og Karl Andreassen framkvæmdastjóri voru ánægðir með daginn.

Lið Kleppsbakka fagnar fræknum sigri og hampar hinum glæsilega verðlaunagrip Ístaks-sleggjunni.

Mikið reyndi á dómara og tímaverði á Ístaksleikunum.