Ný viðhaldsþjónusta Ístaks fer vel af stað

Ný viðhaldsþjónusta Ístaks fer vel af stað

image_pdfimage_print

Viðhaldsþjónustu Ístaks, sem sett var á laggirnar um síðustu áramót, hefur verið afar vel tekið. Deildin sérhæfir sig í þjónustu við fasteignafélög, stærri fyrirtæki og opinbera aðila og hefur nú þegar gert þónokkra viðhaldsþjónustusamninga á þeim markaði. Þá hefur deildin unnið nokkur tilboðsverk tengd viðhaldi og endurbótum fasteigna, meðal annars fyrir Reykjavíkurborg.

Fasteignamarkaðurinn hefur tekið breytingum á undanförnum árum. Fasteignafélög, sem voru nánast óþekkt á íslenskum markaði fyrir aldamót, hafa vaxið mikið og þroskast undanfarin ár. Þar eru komin fram fyrirtæki sem sérhæfa sig í að eiga og reka fasteignir, ólíkt því sem tíðkaðist áður þegar fasteignir voru einkum í eigu fyrirtækjanna sem í þeim störfuðu. Mörg þessara fasteignafélaga kjósa að úthýsa viðhaldi og endurbótum í stað þess að reka eigin viðhaldsþjónustu. Þannig nýtist sérhæfingin betur og auðveldara er að mæta sveiflum í álagi. Í viðhaldsþjónustu Ístaks starfa iðnaðarmenn sem hafa áralanga reynslu af viðhaldstengdum verkefnum auk þess sem deildin nýtur góðs af fjölbreyttri þekkingu og reynslu yfir 400 starfsmanna Ístaks þegar á þarf að halda.

Ístak er enginn nýgræðingur á sviði viðhalds fasteigna. Fyrirtækið hefur á liðnum árum til að mynda sinnt viðhaldi og endurbótum á Alþingishúsinu, Bessastaðastofu, Hallgrímskirkjuturni og fleiri þekktum byggingum auk tilfallandi verkefna fyrir stærri viðskiptavini. Nú sækir fyrirtækið hins vegar sérstaklega fram á þessu sviði og þá einkum með fyrrnefndan hóp viðskiptavina í huga.