image_pdfimage_print

ÍSTAK hefur starfrækt gæðastjórnunarkerfi frá árinu 2007. Kerfið er rekið í samræmi við og uppfyllir kröfur gæðastaðalsins ISO 9001. Gæðakerfið eða rekstrarhandbókin eins og hún er kölluð inniheldur tæp 300 skjöl og skiptist upp í þrjá aðalflokka.

Skiptast skjöl rekstrarhandbókar í þrjá aðal flokka, annar skjalaflokkurinn hefur að geyma þær verklagsreglur sem krafist er af ISO 9000 staðlinum. Þriðji flokkurinn hefur að geyma verklagsreglur kjarna- og stoðferla fyrirtækisins:

01 Stefna og skipulag
02 Verklagsreglur
03 Kerfishlutar

Undirflokkar og stoðskjöl:

04 Starfslýsingar
05 Þjónustulýsingar stoðdeilda
06 Vinnulýsingar og leiðbeiningar
08 Eyðublöð

Gæðamál á verkstað

Fyrir hvert verk er útbúið gæðaskipulag sem tekur mið að kröfum verksamnings. Gæðaskipulag verks skilgreinir samskiptaferla verkkaupa og verktaka, skjalavörslu og dreifingu skjala á verkstað. Gefin er út gæðastýringaráætlun fyrir hvert verk, hún veitir yfirsýn um þau atriði sem þarf að hafa sérstakt eftirlit með eða framkvæma prófanir á og hvernig skal vista niðurstöður eftirlits og prófana. Gæðastýringaráætlunin nær til allra verkþátta án tillits til hvort þau eru framkvæmd af aðal- eða undirverktaka. Skipaður er gæðastjóri verks sem ber ábyrgð á að gæðaskipulagi sé framfylgt í heild sinni.

CE vottun

Fyrirtækið rekur steypuskála í höfuðstöðvum ÍSTAKS þar sem steyptar eru forsteyptar einingar í hin ýmsu verkefni fyrirtækisins. Ný reglugerð tók gildi í júlí 2013 þar sem skilyrt er að CE merkja þarf allar byggingavörur sem falla undir samhæfða evrópska staðla (EN) eða tæknisamþykki (ETA). Steypuskálinn hlaut CE vottun frá BSI á Íslandi árið 2014 eða Certificate of Conformity of the Factory Production Control.

Öryggis-, heilbrigðis-, og umhverfisstjórnunarkerfi ÍSTAKS

Öryggis-, heilbrigðis-, og umhverfisstjórnunarkerfi (ÖHU) kerfi ÍSTAKS hefur verið starfrækt frá árinu 2003 og í byrjun árs 2008 var gefin út ný öryggishandbók. ÖHU-stjórnunarkerfi ÍSTAKS er hluti af gæðastjórnarkerfi fyrirtækisins. Kerfið hefur að geyma öryggis- og umhverfisstefnu fyrirtækisins.

Hjá ÍSTAK er gefin er út öryggishandbók fyrir hvert verk. Hlutverk öryggishandbókarinnar er að vera leiðbeinandi fyrir verkið og varðveita skjöl og skrár er varða ÖHU málefni verksins.

Öryggis-, heilbrigðis-, og umhverfisstjórnunarmál á verkstað

Í byrjun verks er öryggisnefnd sett á laggirnar. Hlutverk hennar er að fullgera öryggishandbókina og framfylgja öryggisreglum. Áhættumat er gert áður en verk hefst af staðarstjórn verksins og öryggisfulltrúa ÍSTAKS. Öryggisfulltrúi ÍSTAKS skoðar verkið og gefur út skoðunarskýrslu, þar sem úrbótaratriðum er úthlutað ábyrgðaraðila og þeim þarf að loka innan ákveðinna tímamarka. Starfsmenn fá kynningu á öryggismálum verksins, handbókinni og horfa á öryggismyndband ÍSTAKS.

Öll slys eru tilkynnt til verkkaupa og til vinnueftirlits ef það á við. Öll slys hjá ÍSTAK eru skráð og gerð innri atburðarskýrsla sem lýsir orsökum slyssins og úrbótar og forvarnaraðgerðum. ÍSTAK hvetur alla starfsmenn að tilkynna næstum slys á þar til gerð eyðublöð, þau eru skráð og úrbótaratriði falin til þess hæfum starfsmanni til framkvæmdar innan tímamarka.

Gæðastefna ÍSTAKS

Það er stefna ÍSTAKS að afhenda verk á réttum tíma með umsömdum gæðum og fullnægjandi arðsemi. Vinna ötullega að öryggismálum og skapa starfsmönnum öruggt starfsumhverfi. Hafa í starfi tæknimenntaða stjórnendur við verkefnastjórnun, sem hafa víðtæka reynslu og kunna að bregðast við breytilegum aðstæðum. Efla liðsanda, búa vel að starfsmönnum og gefa þeim færi á að þróast í starfi þannig að framkvæmdagleði verði í fyrirrúmi. Að beita gæðastjórnunarkerfi, byggja upp ferla og aðferðir við stjórnun sem skapa festu og eru sveigjanlegar og skilvirkar. Skapa traust viðskiptavina með því að standa við skuldbindingar við þá.

Öryggis- og vinnuverndarstefna

Það er stefna ÍSTAKS að skipulegga vinnu og starfsumhverfi þannig að starfsmenn verði ekki frá vinnu vegna vinnuslyss.

Þessum árangri hyggjumst við ná á með því að útbúa og viðhalda skriflegu kerfi sem lýtur að stjórnun öryggis- og vinnuverndarmála. Gera áhættumat vegna þeirra starfa sem unnin eru hjá fyrirtækinu. Að hafa í starfi menntaða stjórnendur við stjórnun öryggis- og vinnuverndarmála á sérhverjum vinnustað. Að hafa í starfi þjálfaða starfsmenn sem veita vinnustöðum ráðgjöf og tilsögn í vinnuverndar- og öryggismálum. Skrá niður slys og atburði sem næstum valda slysi. Greina orsakir slysa og óhappa og gera nauðsynlegar umbætur svo að sambærilegur atburður endurtaki sig ekki. Veita starfsmönnum fyrirtækisins nauðsynlega þjálfun þannig að þeir geti starfað án þess að stofna eigin heilsu eða annarra í hættu.

Umhverfisstefna

Það er stefna ÍSTAKS að umgangast náttúruna með virðingu og valda ekki meira álagi á vistkerfi, einstaka dýrategundir eða nánasta umhverfi en er heimilað og fyrirséð vegna framkvæmdar einstakara verkefna.
Þessum árangri hyggjumst við ná með því að kynna starfsmönnum ÍSTAKS reglur er gilda um umhverfismál og ábyrga umhverfishegðun. Kynna starfsmönnum verka sem hafa farið í gegnum umhverfismat innihald þess. Kynna starfsmönnum verka sem ekki hafa farið í gegnum umhverfismat um vernduð svæði, náttúruminjar eða annað í umhverfinu sem getur skaðast vegna starfssemi verksins. Skipuleggja innkaup þannig að þau valdi sem minnstu álagi á umhverfið. Flokka úrgang frá vinnustöðum. Nota endurnýjanlega orkugjafa þegar því verður við komið.