Jafnréttis- og jafnlaunastefna Ístaks

Ístak vill vera góður og eftirsóknarverður vinnustaður í byggingageiranum þar sem hver starfsmaður er metinn að verðleikum eftir hæfni og frammistöðu án tillits til kyns, aldurs eða þjóðernis. Með setningu sérstakrar jafnréttis- og jafnlaunastefnu ásamt aðgerðaráætlun ætlar Ístak að stuðla að jafnri stöðu og rétti kynjanna, launajafnrétti, jöfnum tækifærum til starfa, jafnrétti í starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun ásamt samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.

Jafnréttis- og jafnlaunastefnu Ístaks er ætlað að tryggja að allir starfsmenn njóti jafnra launa og kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar. Jafnframt að hæfileikar og þekking starfsmanna séu nýtt til fulls og möguleikar á starfsþróun feli ekki í sér kerfisbundna mismunun. Starfsfólk Ístaks er statt á misjöfnum stað í lífinu og hefur ólíkar þarfir fyrir sveigjanleika í starfi en leitast er við að skipuleggja vinnu þannig að hægt sé að samræma skyldur í vinnu og einkalífi eftir því sem við verður komið vegna eðli starfseminnar og þörf er á. Þá vill Ístak leggja sitt af mörkum til að vinna gegn stöðluðum ímyndum um hlutverkaskiptingu kynjanna hvað snertir fjölskylduábyrgð og vinnuskipulag. Hjá Ístaki er lögð áhersla á góða líðan starfsmanna og góðan starfsanda. Allt starfsfólk, óháð kyni, á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu og að það sæti ekki einelti, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni né kynbundnu ofbeldi. Ef sýnt þykir að einelti, kynbundin og/eða kynferðisleg áreitni hafi átt sér stað er tekið á því með formlegum hætti og er slík hegðun ekki liðin á vinnustöðum Ístaks.

Jafnréttis- og jafnlaunastefna endurspeglar á hverjum tíma markmið, framtíðarsýn og leiðarljós Ístaks í jafnréttismálum og er endurskoðuð eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Stefnan felur í sér skuldbindingu um stöðugt umbótaferli og henni fylgir aðgerðaráætlun ásamt tímasettum og mælanlegum markmiðum.

Ýmis jákvæð teikn eru á lofti þegar kemur að stöðu kvenna innan byggingageirans og með því að framfylgja þessari jafnréttis- og jafnlaunastefnu ætlar Ístak að stuðla að jafnari kynjaskiptingu í atvinnugrein sem er enn er verulega karllæg.

Megináherslur Ístaks í jafnréttismálum eru eftirtaldar:

1. Ístak greiðir starfsfólki jöfn laun og kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

2. Ístak kappkostar að ráðningar, starfsþróun og símenntun feli ekki í sér kerfisbundna mismunun vegna kyns, aldurs eða þjóðernis.

3. Stjórnendur Ístaks vinna markvisst að jafnara hlutfalli kynja á verkum, í deildum og í stjórnendastöðum.

4. Starfsfólki er gert kleift að samræma skyldur sínar gagnvart vinnu og einkalífi með sveigjanlegum vinnutíma eða annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið vegna eðlis starfseminnar og þörf er á.

5. Ístak er vinnustaður þar sem einelti, kynferðislegt áreiti, áreitni og ofbeldi líðst ekki.