Vinna við varnargarða í Grindavík liggur niðri á meðan verið er að endurmeta stöðuna. Hjálmur Sigurðsson, framkvæmdastjóri mannvirkja segir að mælingar hafi staðið yfir í gær enda hafi land breyst við jarðeldana norðan við Grindavíkurbæ. Hraunflæðilíkön eru ekki gild lengur vegna breytinganna. Út úr þeirri vinnu mun koma einhver niðurstaða sem hann reiknar með að verði lögð fyrir yfirvöld til samþykktar.
Land í Grindavíkurbæ er mikið sprungið, kvika liggur grunnt í suðurenda kvikugangsins og virðist eiga auðvelt með að komast upp á yfirborðið. Áfram eru líkur á að nýjar gossprungur opnist án fyrirvara samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Þá stafar áfram hætta af sprungum innan Grindavíkur og að jarðvegur hrynji ofan í þær.
Miklar hreyfingar hafa átt sér stað í tengslum við sigdalinn í austurhluta bæjarins sem urðu að mestu leyti á þeim sprungum sem mynduðust 10. nóvember og þegar höfðu verið kortlagðar. Kvikusöfnunin heldur áfram undir Svartsengi.
Segir Hjálmur að verktakar hafi í staðinn verið að vinna í stofnlögn kalda vatnsins inn í Grindavík en einn og hálfur metri af hrauni fór yfir mikilvægan brunn við Grindavíkurveg rétt sunnan við varnargarðinn við Grindavík og starfsmenn vinni við að moka því í burtu. Segir hann það ekki sérlega stórt verk en það taki tíma þegar unnið er með heitt hraun.
Þá segir Hjálmur að framkvæmdir standi yfir við nýjan veg við Bláa lónið. Til að varnargarðurinn við Svartsengi virki þarf að loka skörðum og þá þarf nýja aðkomuleið.
Þetta sé eini vegurinnn niður í Grindavík. Verið sé að leggja nýjan veg frá svæðinu við varnargarðana austast og inn á Bláa lóns-veginn aftur vestan við lónið. Að öðru leyti segir Hjálmur Sigurðsson að nú bíði verktakar við varnargarðana eftir því hvaða stefna verði tekin í framkvæmdum við þá.