Stór áfangi náðist í gær á Keflavíkurflugvelli þegar fyrsta flugvélin tók á móti farþegum í gegnum nýja landgöngubrú ein af fjórum sem Ístak hefur unnið að. Þetta var prufukeyrsla en í næstu viku má reikna með að starfsemin verði komin á fullt.
Þessi áfangi er einn af síðustu hlutum SLN18-verksins á Keflavíkurflugvelli, þar sem Ístak hefur gegnt hlutverki stýriverktaka ásamt því að annast mannvirkjagerð og innri frágang, auk þess að byggja flughlaðið sjálft (NTA22). Þessi framkvæmd hefur leitt til mikilla breytinga í Leifsstöð.
Komusalur, Duty Free og veitingasvæðið hafa stækkað, og nýr glæsilegur biðsalur hefur bæst við með fjórum nýjum landgöngubrúm og rútuhliði. Að auki hefur verið byggð ný vöru- og ruslamóttaka fyrir rekstur. Áfram verður unnið að innréttingu skrifstofubyggingar á fjórðu hæð.