Fyrsta skóflustungan fyrir tvö ný fjölbýlishús fyrir Bjarg íbúðafélag var tekin í dag 9. október 2024 af Einari Þorsteinssyni borgarstjóra, aðstoðarmanni hans og fulltrúum Bjargs, ASÍ, BSRB og Ístaks.
Bjarg íbúðafélag mun reisa 40 leiguíbúðir í tveimur fjögurra hæða fjölbýlishúsum við Safamýri 58-60, í Reykjavík. Áætlað er að íbúðirnar verði tilbúnar til leigu í júní 2026. Íbúðirnar verða tveggja til fimm herbergja.
Ístak mun sjá um byggingarframkvæmdirnar, arkitektahönnun er í höndum A2F og Gríma arkitekta, Kriston sér um raflagnahönnun og Ferill verkfræðistofa um verkfræðihönnun.