14.10.21

Glæsileg viðbygging við Gamla Garð komin í gagnið

Félagsstofnun stúdenta tók í gær formlega í notkun glæsilega viðbyggingu við Gamla Garð en Ístak afhenti verkkaupa bygginguna samkvæmt áætlun um nýliðin mánaðamót. 

Alls eru 69 herbergi í viðbyggingunni og hvert þeirra með sér baðherbergi. Sameiginleg eldhús eru sex talsins ásamt setustofum, samkomurými, ýmiss konar geymslum og þvottaaðstöðu. Andrúm arkitektar hönnuðu viðbygginguna en við hönnun var lögð áhersla á að framkvæmdin félli vel að nærliggjandi byggingum Háskóla Íslands, einkum Gamla Garði, Þjóðminjasafni og götumynd við Hringbraut. 

 

Kári Kolbeinn Eiríksson, staðarstjóri, segir verkið hafa gengið ótrúlega vel. Mildur vetur hafði sitt að segja ásamt því að minni umsvif hafi verið á háskólasvæðinu vegna Covid-19. Því var auðveldara að athafna sig á verkstað þótt vissulega hafi Covid tafið á öðrum sviðum. Samstarfið við verkkaupa var gott og sömuleiðis undirverktaka en þeir helstu voru Rafholt, Alhliða pípulagnir og Ísloft. 

 

Félagsstofnun stúdenta á og rekur Gamla Garð en húsnæðið er ætlað íslenskum og erlendum háskólanemum sem þurfa tímabundinn íverustað yfir vetratímann, s.s. vegna skiptináms. Á sumrin er Gamli Garður starfræktur sem gistiheimili og leigður út sem slíkur. 

 

Gamli Garður var reistur á þriðja áratug síðustu aldar og hefur nær allan þann tíma verið rekinn sem stúdentagarðar. Þar voru fyrir rými fyrir ríflega 40 nema. Nýju viðbæturnar við Gamla Garð samanstanda af tveimur þriggja hæð viðbyggingum ásamt tengigangi við gömlu bygginguna og kjallara. Samtals er nú rými fyrir um 110 íbúa á Gamla Garði. 

 

Þessa dagana vinna starfsmenn Ístaks að ýmsum lokafrágangi í sameiginlegum rýmum innanhúss ásamt hellulögnum og lóðarfrágangi utandyra og má ætla að sú vinna standi fram eftir októbermánuði. 

https://istak.viska.io
Viðbyggingin við Gamla Garð sómir sér vel á lóð Háskóla Íslands og nú þegar er húsnæði komið í fulla notkun.
https://istak.viska.io
Nýja viðbyggingin séð frá aðalbyggingu Háskóla Íslands.
https://istak.viska.io
Nýja viðbyggingin er glæsileg viðbót við Gamla Garð.
https://istak.viska.io
Félagsstofnun stúdenta tók nýju viðbygginguna formlega í notkun í gær við hátíðlega athöfn.