28.04.25

Ístak byggir upp innviði fyrir fyrsta vindorkuver Íslands

Ístak hefur gert samning við Landsvirkjun um byggingu Vaðölduvers, fyrsta vindorkuvers landsins. Samningurinn, sem nemur rúmum 6,8 milljörðum króna, var undirritaður í kjölfar útboðs þar sem sjö tilboð bárust. Tilboð Ístaks var metið hagstæðast, með hliðsjón af samtölu fjárhæðar og kolefniskostnaðar. 

 

Umfangsmikil og fjölbreytt verkefni framundan 

Ístak mun annast byggingu járnbentra og steinsteyptra undirstöða fyrir 28 vindmyllur ásamt gerð kranastæða fyrir uppsetningu þeirra. Þá felur verkefnið einnig í sér alla jarðvinnu á svæðinu, lagningu vatnsveitu og fráveitu, gerð malarplana og umfangsmikla lagningu lagna. 

 

Auk þess mun Ístak reisa um 850 fermetra steinsteypta spennistöð sem mun tengjast við tengivirki Landsnets og hýsa búnað og verkstæði fyrir rekstur vindorkuversins. Verkefnið krefst einnig lagningar yfir 14 kílómetra af háspennustrengjum sem munu tengja hverja vindmyllu við spennistöðina. 

Í framkvæmdunum verður notað um 14.000 rúmmetrar af steypu og áætlað er að grafa um 300.000 rúmmetra af jarðvegi og bergi.  

 

Framkvæmdatími og verklok 

Áætlað er að framkvæmdir hefjist í maí 2025 og ljúki sumarið 2027. Fyrri hluti verkefnisins, þar sem hluti vindmyllanna verður gangsettur, verður tilbúinn árið 2026. 

 

 

Stolt af þátttöku í orkuskiptum Íslands 

Ístak lagði fram lægsta tilboðið í verkið og sýndi jafnframt fram á hagstætt kolefnisspor, sem var mikilvægur þáttur í valferlinu. Meðal aðgerða sem stuðla að sjálfbærni eru notkun rafmagnsbúnaðar og lífdísilolíu fyrir stærri vinnuvélar, auk sérstakrar áætlunar um hagræðingu í flutningum og efnistökum til að lágmarka losun. 

 

Það er Ístaki mikill heiður að taka þátt í þessu sögulega verkefni sem markar tímamót í innleiðingu endurnýjanlegrar orku á Íslandi. „Þetta verkefni gefur okkur einstakt tækifæri til að nýta fjölbreytta reynslu okkar og leggja áherslu á sjálfbærar lausnir,“ segir Karl Andreassen forstjóri Ístaks.