04.09.23

Nýr töskusalur á Keflavíkurflugvelli

Nýr töskusalur var vígður 31. ágúst 2023.  

 

Nýi töskusalurinn á Keflavíkurflugvelli er á jarðhæð í nýrri viðbyggingu við flugstöðina, svokallaðri austurálmu. Í honum eru þrjú stærri og breiðari farangursmóttökubönd, en gert er ráð fyrir að síðar geti tvö bönd bæst við. Samhliða því verða farangursböndin í gamla töskusalnum tekin niður en á því svæði verður síðar opnuð ný og endurbætt fríhafnarverslun fyrir komufarþega.  

 

Nýja viðbyggingin er á þremur hæðum auk kjallara og hófust framkvæmdir um mitt ár 2021. Á dögunum var einnig tekið í notkun nýtt og afkastameira farangursmóttökukerfi sem staðsett er í kjallara byggingarinnar. Áætlað er að framkvæmdum við bygginguna ljúki á síðari hluta næsta árs þegar meðal annars verður tekið í notkun stærra veitinga- og biðsvæði á annarri hæð og fjórir nýir landgangar.  

 

Austurálman er rúmir 20 þúsund fermetrar að stærð, en til samanburðar er Laugardalshöll um 17 þúsund fermetrar. Austurálman er 124,5 m að lengd, 66 m á breidd og 31 m á hæð. 

 

Ístak óskar Isavia og öllum komandi ferðalöngum til hamingju með þennan áfanga. 

 

En til gamans má skoða komandi breytingar á flugvellinum hér - www.kefplus.is