Ístak og bæjaryfirvöld í Nuuk hafa náð samkomulagi sem tryggir opnun stærsta skóla Grænlands haustið 2026. Skólinn, sem stendur við aðalgötuna í hjarta Nuuk, er eitt umfangsmesta verkefni sem íslenskt verktakafyrirtæki hefur tekið að sér erlendis.
Byggingin, sem er í sjö samtengdum húsum og að flatarmáli um 18.000 fermetrar, var reist í alverktöku af Ístaki, með Verkís sem verkfræðihönnuð. Skólinn mun hýsa 1.200 grunnskólanemendur og 120 leikskólabörn. Utan skólatíma verður húsnæðið nýtt sem menningar- og félagsmiðstöð bæjarbúa.
Byggingarframkvæmdir hófust eftir að samningar voru undirritaðir í desember 2019 fyrir 615 milljónir danskra króna, eða um tólf milljarða íslenskra króna. Vegna heimsfaraldurs Covid-19 og ágreinings um brunavarnir tafðist opnun skólans, en nú hefur samkomulag náðst um uppsetningu vatnsúðunarkerfis í öllum byggingum.
Karl Andreassen, forstjóri Ístaks, segir þetta mikilvæg tímamót fyrir alla aðila: „Það er náttúrlega rosalega erfitt að horfa á svona byggingu standa auða, sérstaklega þegar þörf er á henni. Þess vegna hefur þetta bara verið mjög erfitt – og erfitt fyrir samfélagið allt á Grænlandi að horfa upp á tóma byggingu þarna fyrir tólfhundruð börn. Við fögnum því gríðarlega að lausn sé nú fundin.“